Siglunes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Siglufjörður, Siglunes og Héðinsfjörður.

Siglunes er nyrsta táin á milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Þar var samnefndur bær og var margbýlt þar fyrr á öldum og raunar allt fram yfir miðja 20. öld og mikil útgerð. Þangað komu menn úr ýmsum byggðum til róðra, einkum hákarlaveiða, og var Sigluneshákarlinn víðfrægur. Siglunes hefur verið í eyði frá 1988 en þar standa enn nokkur hús og er dvalið þar á sumrin.

Saga Sigluness[breyta | breyta frumkóða]

Bærinn Siglunes var landnámsjörð Þormóðs ramma að því er segir í Landnámabók og þar var lengi höfuðból sveitarinnar, kirkjustaður og prestssetur þrátt fyrir erfiðar samgöngur en landleiðin úr Siglufirði til Sigluness liggur um Siglunesskriður (Nesskriður), illræmdar og hættulegar, og var farið um tæpar götur ofan við sjávarhamra. Um Nesskriður var aldrei talið óhætt að leggja bílveg og hefur Siglunes því aldrei komist í vegarsamband, heldur voru samgöngur þangað á síðari árum svo til eingöngu af sjó. Þjóðsögur segja að ástæðan til þess að aðalkirkja sveitarinnar ásamt prestssetri var flutt frá Siglunesi að Hvanneyri hafi verið sú að á aðfangadagskvöld árið 1613 hafi fimmtíu manns farist í snjóflóði í Nesskriðum á leið til jólamessu á Siglunesi. Engin samtímaheimild er þó til um þetta stórslys og hefur sagan verið dregin mjög í efa. Hálfkirkja var áfram á Siglunesi til 1765.

Staðhættir[breyta | breyta frumkóða]

Séð yfir Siglufjörð að Siglunesi.

Upp af Siglunesi er Siglunesgnúpur, sem er nyrsti hluti Siglunesmúla, fjallsins austan við Siglufjörð. Austan við Siglunesmúla liggur dalur sem nefnist Reyðarárdalur eða Nesdalur. Um hann liggur gönguleið til Siglufjarðar sem er mun öruggari en leiðin um Nesskriður. Austan dalsins er fjallið Hestur, sem gengur fram í sjó milli Sigluness og Héðinsfjarðar. Í mynni dalsins var bærinn Reyðará, sem upphaflega var hjáleiga frá Siglunesi. Þar var lengi veðurathugunarstöð.

Nokkurt undirlendi er á Siglunesi og þar var allstórt tún. Á nesinu er viti, Siglunesviti, reistur 1908. Skammt þar frá rak bandaríski herinn ratsjárstöð á árunum 1943 til 1945 og má enn sjá rústir búða þeirra. Töluverðar verbúðarústir eru einnig á Siglunesi. Raunar er talið að þar hafi verið ein elsta verstöð á landinu og ef til vill einn fyrsti vísir að þéttbýlismyndun en elstu mannvistarleifar þar eru taldar frá 9. eða 10. öld.

Fornleifarannsóknir fóru fram á Siglunesi sumarið 2011 og fannst þar meðal annars útskorinn taflmaður úr ýsubeini, talinn frá 12. eða 13. öld.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Útskorinn taflmaður fannst í rannsókn á Siglunesi. Á vef Fornleifastofnunar Íslands, skoðað 18. ágúst 2011.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Kálfsdalur - Nesdalur - Siglunes". Á vef Fjallabyggðar, skoðað 18. ágúst 2011“.
  • „„Örnefni í Sigluneshreppi". Á www.snokur.is, skoðað 18. ágúst 2011“.